Um þessar mundir er ég að vinna í stóru veggverki á Hótel Laka. Í verkinu, sem er ca 5m x 8m að stærð, má sjá verur í mannsmynd með fuglahöfuð standa í veisluklæðnaði. Búningar veranna eru vandlega hannaðir eftir ham fuglategundarinnar sem hver og ein vera stendur fyrir. Þegar verkið verður fullklárað má sjá himbrima í svörtum og hvítum köflóttum jakka og svartröndóttum buxum, lóu í skósíðum kjól sem er gulur í grunninn en með hvítum og svarbrúnum doppum og mólitan spóa í kjól með brúnu mynstri. Mikil vinna er lögð í að gera verurnar bæði trúverðugar en á sama tíma hafa einkenni hverrar fuglategunar mjög skýr.



Verkið sprettur upp úr samtali við Evu Björk Harðardóttir, einn af eigendum hótelsins, um áhugaverða hluti í umhverfi hótelsins, en það stendur við hliðina á litlu vatni sem státar af ríkulegu fuglalífi. Á bakka vatnsins er lítill garðskáli þaðan sem er auðvelt að stunda fuglaskoðun, en hinumegin við vatnið er álfabyggð. Mig langaði að vinna með þetta hvorutveggja, huldufólkið og náttúruna en samt gera það á nýstárlegan máta. Ég hef töluvert velt fyrir mér snertimörkum raunveruleika og ímyndunar, þá helst í samhengi við kenningar Joseph Campells bókmenntafræðings um að goðsögur og ævintýri séu í raun eðlileg birtingamynd mannlegs samfélags sem er að reyna að skilja heiminn og umhverfið sem hann býr í út frá eðlisávísun og tilfinningum.Verkið er því á einhvern hátt mín túlkun á því hvernig maðurinn speglar sig í náttúru sinni í gegnum þjóðsögur og munnmæli þannig að lífið sem er allt í kringum okkur tekur á sig mennst einkenni og umbreytist í dularfullar goðsagnaverur.

